þriðjudagur, júlí 6

Pop - Six - Squish - Uh uh - Cicero - Lipschitz!

Já hér er maður mættur á ný! Ferskur og endurnærður eftir gífurlega bloggleti.

Aðalástæða þess að ég blogga í dag er jú sú að mér leiðist... það er ekkert í sjónvarpinu, bókin sem ég er að lesa er ekkert skemmtileg, vinirnir uppteknir og kallinn í saumaklúbb. Ég er búinn að vera að færa inn mætinguna hjá börnunum mínum í vinnuskólanum. Þetta er allt orðið svo rafrænt, en ég ræð samt við þetta. Annars gengur vinnan ósköp vel og börnin eru góð við mig. Held að sænska uppeldisfræðin hitti beint í mark!

Ég var að koma af ættarmóti. Það eru svo skemmtileg svona ættarmót þar sem allir ættingjarnir koma saman í risastórum samkomusal og sitja með sínum nánustu, tala varla við aðra, raða í sig kökum og stara svo á diskinn. Mamma mín er samt sú sem hleypur á milli hópa með börnin sín í eftirdragi og kynnir fyrir fjarskyldum krumpuðum frænkum. Ég verð samt að viðurkenna að ég skemmti mér nokkuð vel (fyrir utan allar vandræðalegu aðstæðurnar sem móðir mín kom mér í - maður er samt orðinn nokkuð vanur og roðnar minna með hverju árinu).

Ég hélt upp á afmælið mitt um daginn. Það gekk allt voða vel, ágætis mæting og ég var voða glaður að fólk gat komið. Ég var samt svoldið blautur í tærnar og sofnaði í bílnum hans Péturs á leiðinni í bæinn. Pétur fór með mig heim og kom mér í rúmið. Ég er ekki búinn að venjast íslenska djamminu... klukkan 3 er allt búið í Svíþjóð.
Ég fór í afmæli til hennar Möggu pilot á föstudaginn og fékk loksins að hitta Jón. Þau eru búin að kaupa sér glæsilega íbúð í Bryggjuhverfinu. Ekkert smá langt síðan ég hef hitt fólkið hennar Möggu. Systkini hennar eru öll búin að taka vaxtakipp og ég þekkti þau nánast aftur. Eftir afmælið kíkti ég svo aðeins í heimsókn til hennar Önnu Þóru minnar. Við horfðum á imbann en kíktum svo aðeins í bæinn. Við settumst á Brennsluna og losuðum um málbeinin. Svo fórum við að tjútta á Mojito og því næst farið heim, enda klukkan orðin hálf 3. (gud va svenskt!)

Á laugardaginn fór ég upp í Skálholt að hlusta á Vigni syngja með kórnum Hljómeyki. Tónleikarnir voru frábærir og ég skemmti mér mjög vel. Eftir tónleikana var mér boðið í dýrindis kvöldmat (grillaður lax og meðlæti) og kórteiti. Ég lagði ekki af stað í bæinn fyrr en um eitt en var svo heppinn að fá þá Hjört og Magnus til að sitja í bílnum hjá mér svo ég myndi nú ekki sofna.

Næstu helgi ætla ég að reyna að draga kærastann í einhverja svaka útilegu með mér... en ætli við komumst nokkuð lengra en upp í Heiðmörk. :)

|