mánudagur, desember 6

Flashback og fortíðarþrá

Ég sat fyrir framan tölvuna í gær og las allt bloggið mitt frá fyrstu færslu og fram til dagsins í dag! Vá hvað það er magnað að geta spólað til baka og séð hvað maður var að ganga í gegnum fyrir 40 dögum, 7 mánuðum, ári eða tveimur árum. Þetta blogg mitt er nú ekki svo reglulega uppfært að dagbók megi kalla, þannig að mér datt í hug að kalla þetta Vikublað í staðinn. Eða vikubók? æ þið fattið hvað ég meina.

Innflutningsteitin hans Péturs fór vel fram og ég held að fólk hafi bara skemmt sér vel. Við Pétur byrjuðum gærdaginn á að vaska upp í rúman klukkutíma. Ég mæli ekki með uppvaski í þynnkunni! Pétur fór svo að passa Dag litla en ég settist niður og reyndi að vinna í danssögu ritgerðinni sem ég á einmitt að skila í dag! úpsúps... er næstum búinn að skrifa hana alla á íslensku og er mikið að hugsa um að skila henni á íslensku fyrst að norsku stelpurnar mega skila á norsku.

Ég er byrjaður á jólainnkaupunum!!! Ég fór á amazon.com og keypti 4 geisladiska á 70 dollara með sendingakostnaði. Mér fannst ég verða að gæta jafnréttis í þessum innkaupum mínum og því eru 2 af diskunum handa mér og 2 eru jólagjafir!

Það er voðalega rólegt í vinnunni. Ég er búinn að taka ca 10 símtöl á einum og hálfum klukkutíma, búinn að klára öll verkefni sem ég fékk og er bara að bíða eftir nýjum. Ætla að kíkja á áríðandi mál á msn.games

Það var ekki fleira.

|