mánudagur, desember 20

Fíkn

Ég er fíkill, ég er háður honum. Þegar hann snertir mig er eins og allar tilfinningar magnist upp, öll vandamál gleymast og ég svíf um í alsælu. Hann grætir mig. Hann huggar mig. Mér finnst ég aldrei fallegri en þegar ég er með honum, þegar hann rennur um líkama minn. Hann hjálpar mér að elska mig. Hann stjórnar hverri hreyfingu og ég fylgi með, hjartað fyrst og líkaminn svo. Ég streitist ekki á móti. Ég elska hann og hann elskar mig en núna megum ekki vera saman. Mér líður svo illa að mig langar að hlaupa út á götu og öskra þangað til að ég get ekki lengur staðið í fæturnar og röddin í mér hverfur. Ég þarf enga rödd því þegar ég er með honum segir hann allt það sem ég vil segja. Ég get ekki sofið, ég ligg andvaka og hugsa um hann og hvernig mér líður þegar ég er með honum. Það er eins og að það vanti hluta af mér, hlutann sem fær hjartað til að slá. Ég get ekki án hans lifað. Hann á mig, hann á mig allan.

|