föstudagur, janúar 24

Veit ég hvert ég er að fara?

Nú þegar ég er kominn á síðasta ár í framhaldsskóla stend ég á krossgötum, óvissari um framtíðina en nokkru sinni fyrr. En til að geta áttað mig á því hvert ég er að fara er nauðsynlegt að vera viss hver ég er og hvaðan ég kem.

Þegar ég var yngri, var leiðin ljós, ég ætlaði alltaf að verða læknir. Ég var mjög duglegur að læra, stundaði frjálsar íþróttir af miklu kappi og áður en ég byrjaði í gagnfræðiskóla var ég búinn að velja mér menntaskóla og farinn að dreyma um bjarta framtíðina. Draumarnir voru kannski að mestu leyti sprottnir upp úr þrá, þrá um að komast í burtu frá skólanum og gamla hverfinu. Ég átti ekki sérlega ánægjulega bernsku, var lagður í einelti allan grunnskólann og átti ekki marga vini. Ég var því staðráðinn í því að snúa við blaðinu í framhaldsskóla og byrja upp á nýtt í skóla þar sem enginn vissi nokkur deili á mér. Fyrsta árið var eins og í draumi, mér gekk vel í skólanum, eignaðist marga vini og segja má að ég blómstraði í fyrsta skipti í mörg ár. En draumarnir entust stutt, ég lenti í slysi sem leiddi til þess að ég varð að leggja hlaupaskóna á hilluna með mikilli eftirsjá. Skólinn var heldur ekki eins og ég hafði gert mér í hugarlund og eftir slysið fór mér að hraka í skólanum og ég tók að velja auðveldustu leiðirnar í gegnum skólann. Ég hafði gefið drauminn um læknanám upp á bátinn því ég taldi mig ekki vera nógu góðan. En þegar einar dyr lokast opnast oft aðrar, ég fór að fá áhuga á dansi og gaf mig allan í dansinn og uppskar eftir því. Á þriðja ári í Menntaskólanum í Reykjvík fannst mér ég vera að sigla í strand og tók þá ákvörðun um að hætta í skólanum og hefja nám við Verzlunarskóla Íslands. Námið í Verzlunarskólanum átti strax mjög vel við mig og ég eignaðist fljótt góða vini. Síðasta vetur smitaðist ég svo af hinni svokölluðu „leiklistarbakteríu“ þegar ég fékk að taka þátt í uppfærslu á leikritinu Slappaðu af og gæti ég vel hugsað mér að gera fleira í þeim dúr.

Ég tel nauðsynlegt að ljúka stúdentsprófi meðan maður er enn ungur því mörgum reynist erfitt að byrja aftur í framhaldsskóla og setjast á skólabekk með sér mun yngri nemendum. Sjálfur er ég ári á eftir mínum árgangi en ég kýs að líta svo á það að ég hafi fengið auka ár til að gera upp við mig hvað mig langar að læra eftir stúdentspróf. Valið verður þó alltaf erfiðara eftir því sem fleiri leiðir er um að velja. Hjá mér togast á dansinn, bóknámið og ævintýraþráin.
Þótt ég hafi aðeins æft dans í rúm 3 ár hefur hann alveg gripið mig heljartökum og ég er ekki í rónni nema ég dansi eitthvað á hverjum degi. Gamalt latneskt máltæki segir Ars longa, vita brevis sem þýðir Listin er löng, lífið stutt, en hjá dansaranum er þessu snúið við. Starfsaldur karldansara er að meðaltali frá 20 ára aldri til 35 ára og launin ekki upp á marga fiska. Námið er bæði dýrt og erfitt og ef ég hefði ekki þessi miklu dansgleði innan brjósts kæmi ekki til greina að leggja þetta fyrir mig. Því stend ég núna frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort ég vilji einbeita mér að dansinum og taka mér frí frá öðru námi eftir stúdentsprófin eða hvort ég vilji hafa dansinn áfram sem áhugamál með vinnu eða námi í háskólanum.

Loksins þegar tækifærið er komið, að fljúga burt, er ég efins. Ef ég fer, kem ég þá kannski ekki aftur? Ef ég fer ekki mun ég þá sjá eftir því alla ævi?

Það eitt veit ég að ég verð að fylgja hjartanu í þessum málum.

|

fimmtudagur, janúar 23

---------- *** ---------- *** hurdy gurdy *** ---------- *** ----------

jey!!! snjór snjór snjór
haldiði að ég hafi ekki bara fundið snjóbrettið hans bróður míns út í bílskúr algerlega ónotað. Ég er að vísu búinn að lofa að fara ekki upp í fjöll fyrr en eftir frumsýningu, svo ég brotni ekki þegar ég hlussast niður brekkuna. 7 9 13. En ég verð kominn uppí Ártúnsbrekku um helgina að æfa shoop shoop shoop.

ég er að fara til augnlæknis á eftir.... týndi gleraugunum mínum í vor og þarf að fá mér ný.... vona samt að ég þurfi ekki að nota þau alltaf.... var samt að komast að því að samkvæmt lögum má ég ekki keyra, er víst of sjóndapur, jamms þetta er kannski ástæðan fyrir því að ég tek aldrei eftir hraðahindrunum (",)

|

miðvikudagur, janúar 22

jæja bloggsmogg - þar sem það er frí í frönsku

mikið verð ég feginn þegar við frumsýnum söngleikinn og HÆTTUM AÐ ÆFA Á HVERJUM DEGI ! Dögunum eftir nemó ætla ég að eyða upp í rúmi og með sængina upp fyrir haus. Just two weeks to go! Svo er ég ekki viss hvort ég ætli á árshátiðarballið, ég er orðinn svo slappur í djamminu. Fór í bæinn með Bjarney á föstudaginn, við vorum heillengi á PLastró en fórum svo á sólon í smá stund..... vorum svo komin heim rúmlega 3. Vorum svo bara þreytt og tussuleg allan laugardaginn.

aaaaaaaaa ! ! ! ! ! ! ég er að fara á REUNION á föstudaginn. Við sem vorum að vinna saman á leikjanámskeiðinu í Setbergi sumarið 1999 erum að fara að hittast og elda saman og hafa það nice. Knús-Amambana sumsé Vignir, Hulda, Agnes, Inga og ég. Svona á maður líka að gera, þægileg kvöldstund í góðra vina hópi í stað þess að vera að flækjast eitthvað á djamminu pissfullur og vitlaus.

Ég fer til köben 19.feb og vonandi til London í mars og Svíþjóðar í júní. Skólinn sem mig langar mest í er Balettakademien í Stokkhólmi... það er víst skemmtileg borg, ég komst nú ekki lengra en til Nörrköping þegar ég var að flækjast þarna fyrir 2 árum, en Svíar eru sætir..... svo lengi sem þeir tala ekki..... mér finnst þeir tala skrýtið.... það er sjálfsagt bara vegna þess að ég er búinn að vera svo mikið í danmörku.... ég held að ég verði ekkert lengi að ná málinu, málabrautarhæfileikarnir eru jú enn til staðar þó ég ætli að útskrifast af stærðfræðibraut.

jæja.... nú er það bara newsweek eða dauði.

|

Athygli takk!!! já... nú er sem sagt komið að því. Fyrsta myndbandið úr "Made in USA" e. Jón Gnarr er að koma út. Stillið sjónvörpin vel á popptíví því að á fimmtudaginn fáiði hugsanlega að sjá glitta í iljarnar á mér í tæplega 2 sekúndur!

|