fimmtudagur, júní 15

Brún augu

Í apríl í fyrra, þegar ég var að bíða eftir strætó á Hlemmi, kom kona upp að mér og spurði mig hvað klukkan væri og hvenær leið ellefu kæmi. Ég svaraði henni að klukkan væri fjögur og að leið ellefu kæmi eftir fimm mínútur... sjálfur var ég á leið í vinnuna með ellefunni. Konan var mjög almennileg, settist við hliðina á mér og hélt áfram að tala við mig um borð í strætó. Ég tók samt fljótt eftir því að hún var kannski ekki alveg eins og fólk er flest. Hún fór nefnilega að tala um það hvernig að allt illt í heiminum ætti rætur sínar að rekja til brúneygðs fólks. Allt hennar líf hafði hún þurft að passa sig á brúneygðu fólki sem sífellt reyndi að bregða fyrir hana fæti. Hún hætti að tala og horfði lengi á mig. Að lokum sagði hún að hún vissi strax þegar hún sá mig að ég væri góður einstaklingur af því að ég væri með svo falleg blá augu..... mér til mikils léttis fór hún út á næstu stoppistöð en það síðasta sem hún sagði við mig var "Ekki treysta brúneygðu fólki!" og þessari setningu get ég bara ekki gleymt. Það er meira en ár síðan ég, fyrir algjöra tilviljun, tók sama strætó og þessi kona... en þetta situr svo fast í höfðinu á mér. Hvað hefði gerst ef ég væri brúneygður? Hefði hún lamið mig?

|